Afríkudagar í janúar 2011

Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Afríka 20:20 – félag áhugafólks um málefni Afríku sunnan Sahara
standa fyrir Afríkudögum í janúar dagana 22. – 28. janúar nk. Meðal þess sem boðið verður upp á er
ljósmyndagjörningur þar sem myndir Páls Stefánssonar ljósmyndara frá Afríku eru settar upp á sýningarstöðum
víða um bæinn, boðið verður upp á tvær málstofur um málefni Afríku, Bíó Paradís mun sýna myndir um lífið í
Gíneu-Bissá auk þess sem börn og unglingar hér og þar um borgina setja sig í einn dag í spor ungviðis í Afríku. Þá
mun Rás 1 Ríkisútvarpsins veita Afríku sérstaka athygli þessa daga.

Markmiðið með Afríkudögunum er að vekja athygli á málefnum Afríku og afla fjár til stuðnings menntunarverkefni
Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í Pader-héraði Norður-Úganda. Páll Stefánsson gefur t.a.m. ljósmyndir
sínar sem seldar verða á uppboði í lok daganna. Myndirnar, sem eru alls 25, eru afrakstur heimsókna Páls til Afríku
á síðustu árum. Þær draga upp heillandi og litríka mynd af þeirri fjölbreytni og þeim krafti sem einkennir Afríku og
gefa nýja og jákvæðari sýn á daglegt líf Afríkubúa. Myndirnar voru fyrr á þessu ári sýndar í aðalstöðvum Sameinuðu
þjóðanna í New York í tengslum við Afríkudaginn auk sem þær birtast, ásamt fjölda annarra mynda í bókinni, Áfram
Afríka. Þær voru einnig til sýnis í sýningarsal KSÍ í Laugardal sl. sumar. Þögult uppboð verður á myndunum 28. janúar
nk. í húsakynnum Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Tvær málstofur verða haldnar á Afríkudögum. Sú fyrri ber yfirskriftina „Samstarf Íslendinga við Úganda“ og er haldin
í samvinnu við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólskólans í Reykjvík og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Sú
síðari verður í Háskólanum Íslands og er yfirskrift hennar „Kynning rannsókna í Afríku sunnan Sahara“. Málstofan er
haldin í samvinnu við MARK – Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Bíó Paradís mun bjóða upp á myndir um lífið í Gíneu-Bissá. Um er að ræða myndir Sigurðar Grímssonar og Angeliku
Andrees „Frá Bijagoseyjum – Lífið á Canhabaque“ og „Börn á Bijagoseyjunum“. Þá verður sýnd mynd Dúa J.
Landmark, „Landið sem gleymdist“.

Börn og unglingar á höfuðborgarsvæðinu munu einnig reyna að setja sig í spor ungviðis í Afríku með margvíslegum
hætti í vikunni. Börn í 6. flokk Breiðabliks hafa að undanförnu glímt við það verkefni að búa til fótbolta sem þau
munu svo æfa með, án hefðbundins skóbúnaðar. Þá mun 8. bekkur Snælandsskóla í Kópavogi velta fyrir sér
fjarlægðum.

Þættirnir Til allra átta, Hringsól og Víðsjá á Rás 1 verða helgaðir Afríku í vikunni. Áhugamenn um tónlist og menningu
þessa svæðis eru hvattir til að leggja við eyru.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa styrkt við menntunarverkefni í Norður-Úganda frá árinu 2007. Það
miðar að því að auka skólaaðgang og bæta gæði menntunar meira en 30 þúsund barna í héraðinu fram til ársins
2012. Þúsundir þeirra dvelja eða hafa dvalið í flóttamannabúðum eftir 20 ára stríðsátök á svæðinu. Sérstök
áhersla er lögð á að ná til barna, sem ekki eru í skóla og þá sérstaklega til stúlkna, að bæta kennsluaðferðir og
kennsluumhverfi, að styðja menntayfirvöld í því að efla menntun og vernda börn á átakasvæðum gegn ofbeldi og
misnotkun. Fyrir fjármagn frá samtökunum hafa verið byggðir skólar og kennarabústaðir með allri nauðsynlegri
aðstöðu. Haldin hafa verið þjálfunarnámskeið fyrir kennara og skólayfirvöld og haldnir fræðslufundir með skólafólki,
foreldrum og fleirum um réttindi barna. Sömuleiðis hafa verið námskeið fyrir börn til að fræða þau um réttindi sín
og virkja þau til að taka þátt í skólastarfi og uppbyggingu samfélagsins. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa
skuldbundið sig til að styðja við menntunarverkefnið í Norður-Úganda til loka ársins 2012.

Áhugamannafélagið Afríka 20:20 leggur áherslu á að skapa vettvang fyrir frjóa umræðu um málefni Afríku sunnan
Sahara og vekja á þeim athygli. Samtökin leggja jafnframt áherslu á mannréttindi og umburðarlyndi í samskiptum.

Nánari upplýsingar veita Margrét Júlía Rafnsdóttir (margret@barnaheill.is), verkefnastjóri Barnaheilla – Save the
Children á Íslandi í síma 863 4607 og Jón Geir Pétursson (jgp@skog.is), varaformaður í Afríka 20:20 í síma 866 7659.

Comments are closed.