Málstofur
Rauði krossinn og Afríka 20:20 – áhugamannafélag um Afríku sunnan Sahara standa að sameiginlegum fyrirlestri um endurhæfingu barnahermanna í Vestur-Afríku miðvikudaginn 12. nóvember kl. 17 á landskrifstofu Rauða krossins að Efstaleiti 9.
Fyrirlesari er Dr. Mats Utas mannfræðingur frá Svíþjóð. Utas er virtur í sínu fagi og hefur kennt afrísk fræði við mannfræðideildir háskólanna í Stokkhólmi, Uppsölum, Líberíu og Fourah Bay háskóla í Síerra Leóne. Helstu rannsóknarefni hans lúta að málefnum barnahermanna, flóttamanna og kvenna á átakasvæðum, og hefur hann stundað rannsóknir í Líberíu, Síerra Leóne og á Fílabeinsströndinni.
Rauði kross Íslands hefur stutt verkefni Rauða krossins í Síerra Leóne um endurhæfingu barna sem tóku þátt í borgarastyrjöldinni síðan árið 2004 með söfnunarfé sem aflað var í landssöfnuninni Göngum til góðs, ásamt öðrum framlögum frá einstaklingum og ríkisstjórn. Verkefnið stuðlar að endurhæfingu þessara barna og barnahermanna þar sem fagfólk veitir þeim sálrænan stuðning. Jafnframt fá aðstandendur barnanna fræðslu um aðstæður þeirra og um áhrif stríðsátakanna á börnin.
Afríka 20:20 – félag áhugafólks um Afríku sunnan Sahara leggur áherslu á mannréttindi og umburðarlyndi í samskitum og skoðanaskiptum og eru markmið félagsins meðal annars að vekja umræðu og athygli á málefnum tengdum Afríku og stuðla að auknum samskiptum milli Íslendinga og þjóða sem búa í þeirri heimsálfu.
Öllum er heimill aðgangur.