Zimbabve og Ísland – átök um yfirráð auðlinda og völd

Málstofa verður haldin á vegum félagsins í Norræna húsinu, fimmtudaginn 5. febrúar, kl. 17-18.15, um efnið:

Zimbabve og Ísland – átök um yfirráð auðlinda og völd
Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í landfræði við Háskóla Íslands og stjórnarkona í Afríka 20:20, mun beina sjónum að samanburði á baráttu íbúa Zimbabve fyrir yfirráðum ræktarlands og Íslendinga fyrir yfirráðum sjávarauðlinda. Í báðum tilvikum eru átök við breska hagsmuni og stjórnvöld í forgrunni og finna má mikinn samhljóm í röksemdafærslu beggja smáþjóðanna um samband lífskjara, sjálfbærni og auðlindayfirráða. Í ljósi þess er velt upp spurningum um tengsl einhæfrar umfjöllunar íslenskra fjölmiðla um málefni Zimbabve við staðsetningu landanna á Norður-Suður ási. Áberandi í orðræðunni um okkur (í Norðri) og hina (í Suðri) er uppstilling á andstæðunum  lýðræði, gegnsæi og virðing fyrir lögum  á móti einræði, spillingu og lögleysu. Atburðir síðustu mánaða sýna að Ísland fellur óþægilega vel að tilteknum atriðum í gagnrýnni orðræðu um stjórnmál og óstjórn í  Zimbabve, sem leitt hefur til margvíslegra refsiaðgerða alþjóðasamfélagsins.

Comments are closed.