Dagskrá Afríkudaga 2011

Dagskrá 22. janúar – 28. janúar 2011

Laugardagur 22. janúar
Kl. 14:00 Rás 1 – Til allra átta
Sigríður Stephensen helgar þáttinn tónlist frá Afríku.

Sunnudagur 23. janúar
Opnun sýningar á völdum myndum Páls Stefánssonar úr bókinni „Áfram Afríka“. Sýnt er á ýmsum stöðum í borginni, m.a. á Höfðatorg, í Laugum í Laugardal, í Útvarpshúsinu við Efstaleiti, í Hagkaupum í Kringlunni, í Háskólanum í Reykjavík og í Háskóla Íslands.

Mánudagur 24. janúar
Kl. 13:00 Rás 1 - Hringsól
Magnús R. Einarsson fer á hringsól með Páli Stefánssyni um Afríku.

Þriðjudagur 25. janúar

Breiðablik
Börn í 6. flokk Breiðabliks setja sig í spor barna í Afríku og æfa með fótboltum sem þau hafa búið til sjálf og án hefðbundins skóbúnaðar.

Miðvikudagur 26. janúar
Snælandsskóli
Börn í Snælandsskóla setja sig í spor barna í Afríku og og velta fyrir sér fjarlægðum.

Kl. 12:00-13:30 Málstofa í Háskólanum í Reykjavík, í Herkúles
Samstarf Íslendinga við Úganda
Fjallað verður um aðstoð Íslendinga við Úganda.Framsögu hafa Árni Helgason, fyrrverandi umdæmisstjóri ÞSSÍ í Úganda, sem segir frá því hvers vegna Úganda var valið sem samstarfsland, Lilja Kolbeinsdóttir, menntunar- og þróunarfræðingur fjallar um fullorðinsfræðslu í landinu, Þór Clausen, viðskiptafræðingur segir frá frumkvöðlaverkefni ÞSSÍ og HR í landinu og Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi segir frá menntunarverkefni samtakanna í Úganda. Að loknum erindum, verður opnað fyrir umræður. Fundarstjóri er Geir Gunnlaugsson.
Málstofan er haldin í samstarfi við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Fimmtudagur 27. janúar
Kl. 16:00-17:30 Málstofa í Háskóla Íslands, í stofu 202 í Odda
Kynning rannsókna í Afríku sunnan Sahara
Inga Dóra Pétursdóttir, MA í þróunarfræðum og framkvæmdastjóri UN Woman á Íslandi, fjallar um útbreiðslu alnæmis í Malaví, Jón Geir Pétursson, doktorsnemi í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaskólann að Ási í Noregi segir frá áhrifum umhverfisstjórnunar á lífsafkomu almennings á Elgonfjalli í Úganda og Kenýja og Fjóla Einarsdóttir, MA í þróunarfræðum, veltir því fyrir sér hvort bjargir hjálparsamtaka bjargi götubörnum í Windhoek í Namibíu. Að loknum erindum, verður opnað fyrir umræður. Fundarstjóri er Jónína Einarsdóttir.
Málstofan er haldin í samstarfi við MARK – Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Félagsvísindasvið Háskóla íslands.

Kl. 20:00 Bíó Paradís
Sýndar verða heimildamyndir frá Gíneu-Bissá.
Frá Bijagoseyjum - Lífið á Canhabaque (45 mín)
Hér segir frá lífi fólksins í þorpinu Endena á eyjunni Canhabaque sem er ein af eyjum í Bijago eyjaklasanum skammt undan strönd Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku. Þar kveða siðir meðal annars á um að ungir menn verði að gangast undir vald öldunga þorpsins. Þetta felur í sér sérstaka vígsluathöfn og að henni lokinni segja þeir skilið við fjölskyldu sína. Í myndinni er einnig brugðið upp svipmynd af daglegu lífi fólks á eyjunni og baráttunni fyrir lífsviðurværi í þorpinu.
Heimildamynd eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.
Börn á Bijagos eyjunum (15-20 mín)
Um er að ræða þrjár stuttar myndir um systurnar Juba og Bondia sem eru sjö og
ellefu ára gamlar. Í fyrstu myndinni fylgjum við systrunum þar sem þær sækja ferskt drykkjarvatn í lind sem sprettur fram í flæðarmálinu. Í annarri mynd veiða systurnar krabba á leirunum sem koma úr sjó á fjöru, en þar krafsa þær smákrabba upp úr sandinum, en krabbarnir eru mikilvæg fæðubót fyrir fjölskylduna. Þriðja myndin er stutt mynd um Jubu sem tekur sér sveðju í hönd og heldur út í skóg til að afla sér efnivið í nýtt strápils, en pilsið hnýtir hún úr berki greinanna sem hún heggur í skóginum. Í myndinni sjáum við hvernig pilsið verður til og hvernig hún að lokum fer í nýja pilsinu sínu og tekur þátt í hringdansi stúlknanna í þorpinu.
Heimildamyndir eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.
Landið sem gleymdist (42 mín)
Þessi heimildamynd segir frá því þróunarstarfi sem UNICEF á Íslandi hefur unnið í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku í samvinnu við íslensk fyrirtæki og almenning. Myndin segir frá daglegu lífi og aðstæðum barna í landinu, þeirri þörf sem er fyrir þróunaraðstoð og starfinu sem verið er að vinna til að gera líf íbúa þessa fátæka lands léttbærara. Myndin var tekin upp í Gíneu-Bissá á árinu 2005. Myndin sýnir vel hvernig fólk reynir að draga fram lífið þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Heimildamynd eftir Dúa J. Landmark.

Kl. 21:10 Rás 1 - Hringsól
Þáttur Magnúsar R. Einarssonar endurtekinn. Rætt er við Pál Stefánsson um hringsól hans í Afríku.

Kl. 23:20 Rás 1 – Til allra átta
Þáttur Sigríðar Stephensen um afríska tónlist endurtekinn.

Föstudagur 28. janúar
Kl. 16:30-18:30 Þögult uppboð á myndum Páls Stefánssonar í húsakynnum Barnaheilla – Save the Children á Íslandi að Suðurlandsbraut 24
25 stækkanir á myndum Páls Stefánssonar frá Afríku verða til sýnis og sölu á þöglu uppboði. Allur ágóði af sölu myndanna rennur til menntunarverkefnis Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í Pader-héraði í Norður-Úganda.

Kl. 17:00 Rás 1 – Víðsjá
Þátturinn verður helgaður menningu Afríku.

Comments are closed.