Ársskýrsla 2011
Aðalfundur Afríku 20:20 var haldinn þ. 21. nóvember 2010 á risinu á Café Haiti við Reykjavíkurhöfn. Á aðalfundinn mættu 12 félagsmenn, stjórn meðtalin. Að lokinni sýningu á um 30 mín langri kvikmynd um Íslandsferð Super Mama Djombo frá Gíneu-Bissá fyrr um sumarið var gengið til venjubundinna aðalafundarstarfa og stjórn kosin:
Formaður Geir Gunnlaugsson
Ritari og varaformaður: Jón Geir Pétursson
Gjaldkeri: Magnfríður Júlíusdóttir
Meðstjórnendur: Stefán Kristmannsson og Hulda Gunnarsdóttir
Varamenn: Birna Halldórsdóttir og Sigurlaug Gunnlaugsdóttir
Málstofunefnd : Guðrún Helga Jóhannsdóttir
Skoðunarmaður reikninga : Lilja D. Kolbeinsdóttir
Á starfsárinu hefur stjórnin haldið fimm formlega stjórnarfundi auk ótal óformlegra funda með samstarfsaðilum. Guðrún Helga fór til Senegal á starfsárinu og enginn tók við af henni í málstofunefnd. Fundir stjórnar voru haldnir á kaffistofu Þjóðarbókhlöðunnar.
Félagsmenn
Einstaklingar á útsendingarlista félagsins eru nú 113 talsins og fá reglulega upplýsingar um starfsemi félagins. Auk þeirra fá nokkrir tugir annarra sem hafa t.d. sótt málstofur félagsins upplýsingar um starfsemi félagsins með netpósti. Einnig er haldið úti Facebook síðu af Huldu Gunnarsdóttur með um 250 vini. Í allt borguðu 12 félagsmenn árgjaldið fyrir 2011.
Samstarf við Barnaheill og Crymogea
Í janúar var Afríka 20:20 í samstarfi við Barnaheill -Save the Children á Íslandi og bókaútgáfuna Crymogea um framkvæmd Afríkuviku í lok janúar mánaðar.
Atburðir á Afríkuvikunni sem voru á ábyrgð Afríku 20:20 voru eftirfarandi:
I. Málstofur
Miðvikudagur 26. janúar
Kl. 12:00-13:30 Málstofa í Háskólanum í Reykjavík, í Herkúles
Samstarf Íslendinga við Úganda
Fjallað var um aðstoð Íslendinga við Úganda. Framsögu höfðu Árni Helgason, fyrrverandi umdæmisstjóri ÞSSÍ í Úganda, sem sagði frá því hvers vegna Úganda var valið sem samstarfsland, Lilja Kolbeinsdóttir, menntunar- og þróunarfræðingur sem fjallaði um fullorðinsfræðslu í landinu, Þór Clausen, viðskiptafræðingur sem sagði frá frumkvöðlaverkefni ÞSSÍ og HR í landinu og Petrína Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla - Save the Children á Íslandi sem sagði frá menntunarverkefni samtakanna í Úganda. Að loknum erindum voru umræður. Fundarstjóri var Geir Gunnlaugsson. Málstofan er haldin í samstarfi við kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Málstofugestir voru í 31 talsins.
Fimmtudagur 27. janúar
Kl. 16:00-17:30 Málstofa í Háskóla Íslands, í stofu 202 í Odda
Kynning rannsókna í Afríku sunnan Sahara
Inga Dóra Pétursdóttir, MA í þróunarfræðum og framkvæmdastýra UN Woman á Íslandi, fjallaði um útbreiðslu alnæmis í Malaví, Jón Geir Pétursson, doktorsnemi í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaskólann að Ási í Noregi sagði frá áhrifum umhverfisstjórnunar á lífsafkomu almennings á Elgonfjalli í Úganda og Kenýja og Fjóla Einarsdóttir, MA í þróunarfræðum, velti því fyrir sér hvort bjargir hjálparsamtaka bjargi götubörnum í Windhoek í Namibíu. Fundarstjóri var Jónína Einarsdóttir og var málstofan haldin í samstarfi við MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við Félagsvísindasvið Háskóla íslands. Málstofugestir voru 26 talsins.
II. Kvikmyndasýning
Fimmtudagur 27. janúar 2011
Kl. 20:00 Bíó Paradís
Sýndar voru þrjár heimildamyndir frá Gíneu-Bissá
Frá Bijagoseyjum - Lífið á Canhabaque (45 mín)
Hér segir frá lífi fólksins í þorpinu Endena á eyjunni Canhabaque sem er ein af eyjum í Bijago eyjaklasanum skammt undan strönd Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku. Þar kveða siðir meðal annars á um að ungir menn verði að gangast undir vald öldunga þorpsins. Þetta felur í sér sérstaka vígsluathöfn og að henni lokinni segja þeir skilið við fjölskyldu sína. Í myndinni er einnig brugðið upp svipmynd af daglegu lífi fólks á eyjunni og baráttunni fyrir lífsviðurværi í þorpinu.
Heimildamynd eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.
Börn á Bijagos eyjunum (15-20 mín)
Um er að ræða þrjár stuttar myndir um systurnar Juba og Bondia sem eru sjö og ellefu ára gamlar. Í fyrstu myndinni fylgjum við systrunum þar sem þær sækja ferskt drykkjarvatn í lind sem sprettur fram í flæðarmálinu. Í annarri mynd veiða systurnar krabba á leirunum sem koma úr sjó á fjöru, en þar krafsa þær smákrabba upp úr sandinum, en krabbarnir eru mikilvæg fæðubót fyrir fjölskylduna. Þriðja myndin er stutt mynd um Jubu sem tekur sér sveðju í hönd og heldur út í skóg til að afla sér efnivið í nýtt strápils, en pilsið hnýtir hún úr berki greinanna sem hún heggur í skóginum. Í myndinni sjáum við hvernig pilsið verður til og hvernig hún að lokum fer í nýja pilsinu sínu og tekur þátt í hringdansi stúlknanna í þorpinu.
Heimildamyndir eftir Sigurð Grímsson og Angeliku Andrees.
Landið sem gleymdist (42 mín)
Þessi heimildamynd segir frá því þróunarstarfi sem UNICEF á Íslandi hefur unnið í Gíneu-Bissá í Vestur-Afríku í samvinnu við íslensk fyrirtæki og almenning. Myndin segir frá daglegu lífi og aðstæðum barna í landinu, þeirri þörf sem er fyrir þróunaraðstoð og starfinu sem verið er að vinna til að gera líf íbúa þessa fátæka lands léttbærara. Myndin var tekin upp í Gíneu-Bissá á árinu 2005. Myndin sýnir vel hvernig fólk reynir að draga fram lífið þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Heimildamynd eftir Dúa J. Landmark.
Auk þessa fór einn stjórnarmaður með starfsmanni Barnaheilla til að kynna málefni álfunnar í Snælandsskóla og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Afríkuvikan vakti athygli í fjölmiðlum og lauk með uppboði á myndum Páls Stefánssonar ljósmyndara sem höfðu verið til sýnis víðs vegar um bæinn. Samstarfið við Barnaheill gekk mjög vel og vakti verðskuldaða athygli á málefnum Afríku sunnan Sahara.
Kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara
Hulda og Jón Geir hafa f.h. stjórnar verið í sambandi við forsvarsmenn Bíó Paradís til að kanna möguleika á frekari samstarfi um að sýna kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara. Þessu var sýndur áhugi af hálfu þeirra og birtist m.a. í sýningu þriggja mynda frá Gíneu-Bissá á Afríkuvikunni. Sýningin var vel sótt. Ekki hefur orðið af fleiri sýningum og nýr forráðamaður tekinn við.
Félagið vakti athygli félagsmanna á kvikmyndinni Sá sem kallar frá Tchad (2011) á frönsku kvikmyndahátíðinni í janúar 2012 (http://www.imdb.com/title/tt1639901/).
Heimasíða félagsins
Félagið fékk lénið afrika2020.is á árinu í stað africa.is. Umsýsla heimasíðunnar var í höndum Huldu Gunnarsdóttur.
Vorball Afríku 20:20
Vorball félagsins var haldið öðru sinni í Iðnó þ. 15. apríl 2011. Prenttækni studdi félagið með prentun auglýsingaplakata sem dreift var víða um bæinn. Einnig var ballið auglýst gegnum Facebook og í öðrum aðgengilegum miðlum. Cheick Bangoura slagverksleikari frá Gíneu-Konakrí var fenginn til að spila á conga trommur við dans Söndru Erlingsdóttur. Ballið var vel heppnað og stóð undir sér með rúmlega 80 gestum sem borguðu aðgangseyri. Nokkrir til mættu eftir að miðasölu lauk og náðu síðustu dönsunum. Ákveðið er að halda næsta vorball í Iðnó þ. 13. apríl n.k.
Samfélagið í nærmynd
Afríka 20:20 var í samstarfi við stjórnendur Samfélagsins í nærmynd á Rás 1 á starfsárinu. Komu félagsmenn fram í átta þáttum í röð þar sem málefni Afríku sunnan Sahara voru rædd. Hlusta má á þættina á heimasíðu félagsins (sjá http://www.afrika2020.is/?p=174).
26. maí Jón Geir Pétursson: Sviptingar við ofanverða Níl, m.a. erfið stofnun Suður-Súdan, kosningar og ólga í Úganda, skipting vatns o.fl.
9. júní Stefán Kristmannsson: Kórsöngur frá Malavívatni-
16. júní Magnfríður Júlíusdóttir: Jafnréttismál - reynsla frá Suður Afríku og Zimbabwe
23. júní Sigurlaug Gunnlaugsdóttir: Orkumál í Afríku - m.a. reynsla frá Kenya (og/eða umfjöllun um baráttuna gegn Apartheit stefnu stjórnvalda í Suður-Afríku á sínum tíma)
30. júní Birna Halldórsdóttir: Mikilvægi vatns - Vatnsverkefni Rauða Krossins í Malaví.
7. júlí Hulda Gunnarsdóttir: Félagsmál, sérstaklega kjör barna - Namibía
14. júlí Lilja Kolbeinsdóttir: Gildi menntunar, m.a. fullorðinsfræðslu - Reynsla og dæmi frá Angóla og Úganda
21. júlí Geir Gunnlaugsson: Heilbrigðismál í Afríku með áherslu á Gíneu Bissá
Hver og einn viðmælandi kom með afríska tónlist með sér í þáttinn. Þessir þættir mæltust vel fyrir og sýndu stjórnendur þáttarins áhuga á því að endurtaka leikinn á komandi sumri.
Málstofa um þróunarsamvinnu
Þann 8. nóvember 2011 stóð félagið að málstofu, Þróunarsamvinna Íslendinga á tímamótum, í tengslum við ný samþykkta þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu Íslendinga. Málstofan var haldin í fundarsal Þjóðarbókhlöðunnar.
Setning: Geir Gunnlaugsson, formaður Afríka 20:20
Þróunarsamvinnuáætlun Íslendinga 2011-2014. Hermann Ingólfsson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu
Hvar komum við að gagni ? Hugleiðingar um val á samstarfslöndum. Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands
Ábyrgð Íslendinga í þróunarsamvinnu. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis
Mismunandi staða félagasamtaka. Inga Dóra Pétursdóttir, félagi í Afríka 20:20, og framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.
Að loknum erindum tóku fyrirlesarar þátt í pallborðsumræðum ásamt Þóri Guðmundssyni sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða Kross Íslands. Fundarstjóri var Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við HÍ. Málstofan var sótt af rétt um 40 manns og góðar umræður í lok fundar.
Önnur mál
Útgáfumál hafa verið til umræðu innan stjórnar en engin niðurstaða er enn fengin varðandi þau mál.
Komandi starfsár
Samstarf í stjórn hefur gengið með ágætum og margar spennandi hugmyndir komið upp varðandi áframhaldandi starf. Eins og að ofan greinir þá er búið að panta Iðnó fyrir dansleik þ. 13. apríl 2012. Útgáfumál og þróun heimasíðu verða sem fyrr á dagskrá. Málstofur eru mikilvægir þáttur í starfinu og æskilegt væri að hafa a.m.k. tvær málstofur á hvorri önn starfsársins. Einnig þarf að vinna meir að því að fá kvikmyndir frá Afríku sunnan Sahara.
Reykjavík, 7. mars 2012
Geir Gunnlaugsson
formaður
Filed under: Viðburðir | Comments Off